Sérstakur stuðningur við nemendur

Með sérstökum stuðningi við nemendur (náms- og/eða félagslegum) er leitast við að tryggja þeim jákvæðar námsaðstæður, góðan námsárangur og góða líðan. Í 11. grein Reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010 segir: ,,Sérstakur stuðningur getur falið í sér breytingu á námsmarkmiðum aðalnámskrár grunnskóla, námsgögnum, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum. Stuðningurinn er skipulagður til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans.“
Hver og einn nemandi skólans tilheyrir ákveðnum nemendahópi/bekk og hefur sinn umsjónarkennara. Umsjónarkennara ber að fylgjast náið með námsframvindu og félagslegri stöðu nemenda sinna og stuðla að vellíðan þeirra í skóla (skv. 13. gr. laga um grunnskóla frá 2008 og aðalnámskrá grunnskóla). Umsjónarkennari leitar eftir samvinnu og stuðningi annarra aðila innan og utan skóla í samræmi við þarfir einstakra nemenda.
Deildarstjóri sérkennslu er Kristín Axelsdóttir. Umsjónarkennarar láta deildarstjóra sérkennslu í té upplýsingar um námsframvindu þeirra sem eiga undir högg að sækja í námi og koma til hans og /eða nemendaverndarráðs óskum um sérstakan stuðning fyrir einstaka nemendur. Á hverju vori fylla umsjónarkennarar út beiðnir um sérkennslu/stuðning fyrir næsta skólaár í samráði við forráðamenn nemenda. Auk þess er allt skólaárið, til dæmis í kjölfar skimana og miðannaprófa, hægt að vísa máli nemenda til nemendaverndarráðs Háaleitisskóla og óska eftir ráðgjöf og stuðningi starfsmanna námsvers. Nemendur sjálfir, foreldrar og allir kennarar skólans geta óskað eftir sérkennslu, stuðningi eða að leitað sé annarra sérstakra leiða til að bæta líðan og/eða námsárangur nemenda. Foreldrar og forráðamenn eru eindregið hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara, deildarstjóra sérkennslu eða námsráðgjafa hafi þeir áhyggjur af námsframvindu barna sinna, félagslegum samskiptum eða líðan þeirra.
Mikilvægt er að til séu greiningar á vanda nemenda frá viðurkenndum greiningaraðilum svo að inngrip og stuðningur verði sem markvissast. Nemendum er yfirleitt vísað í lestrargreiningu við lok 3. bekkjar / upphaf 4. bekkjar ef það er mat sérkennara, umsjónarkennara eða foreldra að þörf sé á að skoða lestrarerfiðleika nemanda frekar en gert hefur verið. Nemendum er vísað í greiningar til sálfræðinga eða annarra sérfræðinga ef ástæða þykir til að skoða aðra erfiðleika svo sem almenna námsörðugleika, einbeitingarvanda, hegðunarvanda eða vanlíðan.
Þegar metið er hvers konar úrræði/stuðningur/sérkennsla koma nemendum að mestu gagni er eftirfarandi haft til hliðsjónar:
- Niðurstöður greininga,
- niðurstöður skimana í læsi og stærðfræði sem lagðar eru árlega fyrir í ákveðnum árgöngum,
- almennt námsmat, bæði símat og mat við annaskil.