í Hvassaleitisskóla starfar hugmyndaráð. Í því situr einn nemandi úr hverjum árgangi 1.-7. bekkja. Kosið er í hugmyndaráð í hverjum árgangi að hausti. Nemendur fá tækifæri til þess að bjóða sig fram, þeir sem gefa kost á sér kynna fyrir öðrum í árganginum hvers vegna þeir hafa áhuga. Svo er gengið til leynilegra kosninga. Mikilvægt er að tengja þessa vinnu hugmyndum um lýðræði og nýta tækifærið til þess að fara yfir lýðræðishugtakið sem er einn af grunnþáttum menntunar skv. Aðalnámskrá grunnskóla (2011). Hvað felst í hugtakinu, mikilvægi þess, réttindi og skyldur í lýðræðisríki o.fl. Einnig að fara yfir reglur í leynilegum kosningum, setja upp kjörstað og leyfa nemendum að upplifa hvernig það er að kjósa. Kennarar geta gengið eins langt og þeir vilja í þessum umræðum og vinnunni í kringum þetta. Það er samt mikilvægt að árgangurinn vinni þetta saman þar sem tveir hópar eru í árgangi.

Hugmyndaráðið fundar mánaðarlega

Skólaráð kallar hugmyndaráð til samráðs einu sinni á önn.  Þess á milli getur hugmyndaráð óskað eftir fundi með skólaráði.

Lýðræðisleg vinnubrögð og virðing fyrir skoðunum annarra eru leiðarljós starfsins þar sem nemendur eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfið og samfélagið. Markmiðið er samkennd og virðing, færni í mannlegum samskiptum, mannréttindi og aukinn skilningur á lýðræðislegum vinnubrögðum.